Um Einsa kalda

Einar Björn Árnason er eigandi og yfirmatreiðslumeistari Einsa Kalda. Hann er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum og hefur búið þar stærstan hluta ævi sinnar.  Einar rekur bæði veitingastað og veisluþjónustu undir nafni Einsa Kalda og er veitingastaðurinn staðsettur á Hótel Vestmannaeyjar en veisluþjónustan í Höllinni, stærsta veislu- og ráðstefnuhúsi Eyjamanna.

Áður en Einar Björn hóf nám í matreiðslu starfaði hann sem sem bakari í 4 ár og var að lærði bakaraiðn hjá Arnóri bakara í Vestmannaeyjum. Einar Björn færði sig hins vegar alfarið yfir í matreiðsluna og byrjaði sem nemi hjá Grími Gíslasyni, Grími kokki en kláraði samninginn sinn hjá Sigga Hall á Hótel Óðinsvé auk þess að starfa á veitingahúsinu Argentína. Einar Björn útskrifaðist sem matreislumaður árið 2007 með ágætiseinkunn og árið 2012 lauk hann svo meistaranámi í greininni og hefur síðan þá verið með matreiðslunema í læri hjá sér.  Árið 2015 var Einar Björn fenginn sem yfirkokkur hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu og hefur ferðast víða með strákunum okkar, þar sem hápunkturinn var eftirminnilega Evrópumótið í Frakklandi sumarið 2016. 

Einar unnir heimabæ sínum Vestmannaeyjum afar heitt og hann var alltaf ákveðinn í að snúa aftur til Eyja eftir námið, þar sem hann býr nú ásamt eiginkonu og þremur börnum.
  Það er auðvitað ekki alltaf einfalt fyrir metnaðarfullan matreiðslumann  sem býr á eyju úti í ballarhafi að fylgjast vel með straumum og stefnum í eldamennskunni til að staðna ekki í faginu. Einar stendur samt alveg klár á þessu og hefur hann gætt þess vel að halda góðu sambandi við kollega sína í Reykjavík, en það gerir hann með því að heimsækja þá reglulega og fá þá sömuleiðis í heimsóknir til Eyja. Í þessum heimsóknum er skipst á hugmyndum og uppskriftum, sem halda Einari ferskum og „á tánum“  og í tengslum við það sem er mest spennandi í bransanum á hverjum tíma..

Í eldamennskunni finnst Einari skemmtilegast að töfra fram ljúffenga sjávarrétti og fyrir þá er hann rómaður. Þessi áhugi hans ætti kannski ekki að koma á óvart, þar sem nálægðin við fengsæl fiskimið gera honum kleift að fá spriklandi ferskan fisk daglega. Hann leggur reyndar mikið upp úr því að nota í matargerðina staðbundið hráefni, s.s. bjarg- og sjófugl ásamt ýmis konar kryddjurtum sem týndar eru á eyjunni og margt fleira.